SKIPULAGSSKRÁ fyrir Minningarsjóð Helgu Jónsdóttur og Sigurliða Kristjánssonar til stuðnings nýjungum í læknisfræði

Í samræmi við erfðaskrá hjónanna Helgu Jónsdóttur og Sigurliða Kristjánssonar, dags. 31.8.1971, og viðbótarerfðaskrá Helgu Jónsdóttur, dag. 3.7.1974, stofnuðu forstjórar í dánarbúi þeirra hjóna sjóð með eftirfarandi skipulagsskrá hinn 14.7.1980, sem hlaut staðfestingu forseta Íslands 17.7.1980.

1. gr.

Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Helgu Jónsdóttur og Sigurliða Kristjánssonar til stuðnings nýjungum í læknisfræði.

2. gr.

Markmið sjóðsins er stuðningur við nýjungar í læknisfræði, einkum á sviði heila- og hjartaskurðaðgerða, augnlækninga og öldrunarsjúkdóma.

Ár hvert skal sjóðsstjórn úthluta tekjum sjóðsins, sbr. 4. gr. skipulagsskrár þessarar, til verkefna, nýjunga eða rannsókna sem samræmast markmiði hans. Stjórn hefur og heimild til að úthluta árlega allt að kr. 10.000.000 af öðrum eignum sjóðsins í sama markmiði. Tekjum og eignum sjóðsins skal ekki ráðstafað í öðrum tilgangi en þeim sem samræmist markmiði hans.

3. gr.

Stofnfé sjóðsins er 12,5% af nettósöluandvirði eignarhluta hjónanna í fyrirtækinu Silli & Valdi, reiðufé og skuldabréf. Sjóðinn ber að ávaxta í vísitölutryggðum ríkisskuldabréfum eða með öðrum jafntryggum hætti.

4. gr.

Tekjur sjóðsins eru vextir af stofnfé og öðru fé, sem sjóðnum kann að áskotnast. Gjafafé skal leggja við stofnfé. Stjórnunarkostnaður greiðist af tekjum sjóðsins.

5. gr.

Stjórn sjóðsins skipa 3 menn tilnefndir af dómsmálaráðuneytinu til 5 ára í senn. Ef þess er kostur, skulu tveir stjórnarmenn vera úr hópi ættingja Helgu og Sigurliða, þannig að ættingjar hvors þeirra eigi fulltrúa í stjórninni, en þriðji maðurinn skal vera prófessor í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands og er hann formaður sjóðsins. Verði sjóðurinn án stjórnar eða stjórn hans ekki fullskipuð á einhverjum tíma tilnefndir dómsmálaráðuneytið nýja stjórnarmenn. Dómsmálaráðuneytið getur vikið stjórnarmanni frá störfum, ef bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann telst ekki að mati dómsmálaráðuneytisins verður til að sitja áfram í stjórn sjóðsins.

6. gr.

Sjóðsstjórnin semur reikninga sjóðsins árlega. Skal reikningsskilum lokið fyrir júní næsta ár á eftir reikningsári. Reikningarnir skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Þeir skulu birtir í B-deild stjórnartíðinda. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.

Einfaldur meirihluti ræður ákvörðunum innan sjóðsstjórnarinnar. Greiða má þóknun til stjórnarmanna og ákveður þá dómsmálaráðuneytið þóknunina með hliðsjón af þeirri vinnu, sem lögð hefur verið fram í stjórnarstarfið.

7. gr.

Sjóðstjórn má breyta skipulagsskrá þessari ef það telst nauðsynlegt eða heppilegt vegna breyttra aðstæðna. Við breytingarnar skal taka mið af vilja stofnenda sjóðsins samkvæmt erfðaskrám þeirra. Slíkar breytingar skulu hljóta samþykki sýslumannsins á Norðurlandi vestra.

8. gr.

Verði sjóðurinn óstarfhæfur skal stjórn fara þess á leit við sýslumanninn á Norðurlandi vestra að sjóðnum verði slitið eða hann sameinaður öðrum sjóði, stofnun eða félagasamtökum sem hafa sambæri-legt markmið og sjóðurinn. Komi til slita skal eignum sjóðsins ráðstafað til vísindastarfsemi í samræmi við markmið hans.

9. gr.

Leita skal staðfestingar forseta Íslands á skipulagsskrá þessari.